Seldu loks MAX þotur

Það eru rúmir sautján mánuðir liðnir frá því að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar eftir tvö flugslys þar sem 346 manns misstu lífið. Allt frá því í desember í fyrra hefur ekkert flugfélag lagt inn pöntun fyrir þessum þotum. Á því hefur orðið breyting.

Frá komu Enter Air til Akureyrar í ársbyrjun 2018. Þetta pólska leiguflugfélag hefur nú fest kaup á samtals 10 MAX þotum.

Fyrstu sjö mánuði ársins var kaupsamningum á rúmlega fjögur hundruð MAX þotum rift. Í ágúst bættust í það minnsta fjórar við þegar Icelandair náði samkomulagi við Boeing um að kaupa tólf þotur í stað sextán af þessari tegund.

Á sama tíma og afbókunum rignir inn hjá Boeing þá hafa ekki borist neinar nýjar pantanir. Þar til nú í vikunni þegar pólska leiguflugfélagið Enter Air festi kaup á tveimur MAX þotum í viðbót við þær átta sem félagið hafði áður bókað hjá Boeing.

Þess má geta að Enter Air sá um leiguflug til Akureyrar frá Bretlandi í ársbyrjun 2018. Fyrstu ferðir félagsins gengu þó ekki sem skildi og lentu þoturnar því á Keflavíkurflugvelli í staðinn.

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær MAX þotur fá að fara í loftið á ný en ljóst er að álit almennings á þessum þotum er víða lítið. Af þeim sökum hefur verið horft til nafnabreytingar á þotunum og nú virðast stjórnendur Boeing ætla að fella út MAX heitið. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér vegna samningsins við Enter air er nefnilega talað um Boeing 737-8 þotur í fyrirsögn en ekki Boeing 737 MAX líkt og Guardian benti á.