Stjórnarmaður PAR Capital selur öll sín hlutabréf

Gengi hlutabréf í flugfélögum hefur fallið í ár og miklar uppsagnir eru nú boðaðar í fluggeiranum. Það vakti því athygli að stjórnarmaður í United Airlines losaði sig við öll hlutabréfin sín í flugfélaginu í síðustu viku.

Næst stærsti hluthafinn í Icelandair Group er bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management. Stjórnendur sjóðsins einbeita sér að fjárfestingum í flug- og ferðageiranum og þannig hefur PAR Capital lengi verið meðal stærstu hlutahafa United Airlines.

Forsvarsmenn vogunarsjóðsins voru þó ekki ánægðir með gang mála hjá bandaríska flugfélaginu í ársbyrjun 2016 og vildu forstjórann burt. Sá hélt þó velli en til að ná sáttum við PAR Capital og annan vogunarsjóð var fjölgað í stjórn flugfélagsins. Þá tók Edward Shapiro, einn af stofnendum PAR Capital, sæti í stjórninni.

Shapiro þessi hefur verið stjórnarmaður hjá United Airlines allar götur síðan. Hann komst hins vegar í viðskiptafréttirnir fyrir helgi þegar sagt var frá því að hann hafði selt öll hlutabréf sín í flugfélaginu síðastliðinn þriðjudag. Tveimur dögum áður en tilkynnt um áform United að segja upp þriðjungi flugmanna United líkt og rakið er í frétt Bloomberg um hlutabréfasölu stjórnarmannsins.

Þar segir að Shapiro hafi fengin rúmlega 700 milljónir króna fyrir 157 þúsund hluti í United en vikuna áður hafði hann losað sig við 25 þúsund hluti.

Gengi hlutabréfa í flugfélögum hefur fallið hratt í heimsfaraldrinum og þar er United Airlines engin undantekning. Þannig er verðmæti félagsins um þriðjungur af því sem var í ársbyrjun.

Líkt og Túristi hefur fjallað um þá hefur PAR Capital selt bréf sín í Icelandair jafn og þétt allt frá því í vor.