Þess vegna þarf Icelandair ekki lengur 30 milljarða króna

Hlutafjárútboð Icelandair í næsta mánuði verður ekki eins umfangsmikið og lagt var upp með í vor. Forstjóri félagsins segir skýringarnar á því nokkrar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. MYND: ICELANDAIR

Þegar hluthöfum Icelandair var upphaflega kynnt boðað hlutafjárútboð félagsins þá var gert ráð fyrir að hægt yrði auka hlutfé um allt að þrjátíu milljarða króna. Núna er aftur á móti lagt upp með tuttugu milljarða kr. en verði umfram eftirspurn í útboðinu þá verður heimild til að selja hlutafé fyrir þrjá milljarða kr. í viðbót.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir skýringuna á þessari lækkun liggja í nokkrum þáttum. Þannig hafi upphaflega verið gert ráð fyrir að kröfuhafar gætu breytt skuldum í hlutafé. „Niðurstaða í samningum við lánveitendur var að gera slíkt ekki þar sem veðstaða lánanna er mjög sterk þrátt fyrir allt,“ segir Bogi.

Hann bendir jafnframt á að frá því að hlutahafafundurinn var haldinn í lok maí þá hafi nokkrir mikilvægir þættir þróast á jákvæðan máta og lausafjárstaðan betri en gert var ráð fyrir.

Í fyrsta lagi þá feli samningur við Boeing í sér umtalsverðar bætur auk fækkun á fjölda flugvéla sem félagið er skuldbundið til að kaupa. Í öðru lagi hafi samkomulag við lánveitendur, leigusala, færsluhirða og aðra lykilbirgja hefur aukið svigrúm félagsins. Í þriðja lagi var rekstur Icelandair í sumar umfram væntingar og sérstaklega fraktflutningar félagsins.

Ef hlutafjárútboð Icelandair í september gengur upp þá ætlar íslenska ríkið að ábyrgjast nærri fimmtán milljarða króna lánalínu til félagsins. Íslandsbanki og Landsbankinn veita svo félaginu samtals lán upp á rúman einn og hálfan milljarð króna í viðbót.

Bankarnir tveir eru nú þegar meðal helstu kröfuhafa Icelandair en eftir efnahagshrunið 2008 tóku þeir yfir hluti stærstu eigenda flugfélagsins líkt og Túristi rifjaði upp í vor.