Þinginu ber líka að skoða mögulega röskun á samkeppni

Icelandair Group er stórtækt á fleiri sviðum en í farþegaflugi og á þar með í samkeppni við fjölda íslenskra fyrirtækja. Formaður fjárlaganefndar segir flesta meðvitaða um mögulega röskun á samkeppni í tengslum við ríkisábyrgð á allt að fimmtán milljarða króna láni til fyrirtækisins.

Þó farþegaflug frá Keflavíkurflugvelli sá lang stærsti hluti starfsemi Icelandair Group þá á fyrirtækið líka tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins.

Fjárlaganefnd hefur óskað eftir umsögn átján stofnanna, fyrirtækja og fjármálafyrirtækja á frumvarpi fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á fimmtán milljarða láni til Icelandair Group.

Samkeppniseftirlitið er ekki á þeim lista og ekki heldur öll þau íslensku fyrirtæki sem eiga í samkeppni við dótturfélög Icelandair Group líkt og Túristi fjallaði um fyrr í dag. Aftur á móti hefur fjárlaganefnd leitað til Play en það fyrirtæki hefur ennþá ekki hafið flugrekstur enda ekki með leyfi til slíks.

Spurður um skýringar á þessu umsagnarlista þá segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, á að öllum sé frjálst að senda inn umsagnir og hvatt sé til þess af hálfu Alþingis. Hann segir að listinn sem fastanefndir sendi frá sér nái gjarnan til stærri aðildarfélaga og samtaka og í þessu tilviki hafi verið leitað til Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Eftir því sem umfjöllun vindur fram þá er oft kallað sérstaklega eftir umsögnum fleiri aðila,“ bætir Willum við.

Hann segir jafnframt að í greinargerð frumvarpsins þá séu ríkisaðstoðarreglur og möguleg samkeppnisröskun, á öðrum mörkuðum og í tengdri starfsemi, vera álitamál sem flestir eru meðvitaðir um. Þessi hlið hafi verið skoðuð af hálfu stjórnvalda og hana beri jafnframt að skoða af hálfu fjárlaganefndar og þingsins að mati Willum.