Þjóðirnar sem hafa bókað flestar gistingar hér á landi í september

Á hefðbundnum haustdegi þá hefðu Bandaríkjamenn verið langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi. Nú eru það hins vegar þýskir ferðamenn sem eiga flest herbergi bókuð á íslenskum gististöðum í næsta mánuði. Í ljósi aðstæðna er þó óljóst hversu margir koma hingað í raun og veru.

Herbergi á Icelandair Hótel Mývatni. Það hótel er opið og þar mun vera nóg að gera. Mynd: Icelandair hótelin

Þoturnar sem nú fljúga til Íslands eru ekki eins þéttsetnar og áður. Ástæðan er sú að meginþorri þeirra sem á bókað far til Íslands mætir ekki í flugið nú þegar allir þurfa í sóttkví við komuna til landsins. 

Ekki liggur fyrir hvenær slakað verður á þessari kröfu og því má reikna með að útlendingar haldi áfram að afpanta Íslandsreisur á næstunni. Þar á meðal allir þeir sem bókað hafa gistingu hér á landi hjá Booking.com.

Samkvæmt upplýsingum frá þessari vinsælu bókunarsíðu þá eru það Þjóðverjar sem hafa tryggt sér flest hótelherbergi hér á landi hjá Booking.com í september. Þar á eftir koma Bretar og svo Hollendingar. Frakkar og Ítalir koma svo í fjórða og fimmta sæti yfir þær þjóðir sem eiga flestar gistingar bókaðar hér á landi í næsta mánuði.

Í ljósi þess hve umsvifamikið Booking.com er á íslenska markaðnum má gera ráð fyrir að bókunarstaðan hjá fyrirtæki endurspegli nokkuð vel hverrar þjóðar fólkið er sem á bókaðar ferðir hingað næstu vikur.

Eins og gefur að skilja eru ferðabókanir á heimsvísu miklu færri í dag en fyrir ári síðan. Í svari Booking, við fyrirspurn Túrista, segir til að mynda að ferðatakmarkanir víða um heim hafi dregið mjög úr umsvifum fyrirtækisins.