Þjóðverjar vara við Íslandsferðum vegna kröfunnar um sóttkví

Frá og með deginum í dag þurfa allir þeir sem til landsins koma að fara í allt að sex daga sóttkví. Af þeim sökum vara þýsk stjórnvöld við ferðalögum til Íslands.

MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Þjóðverjar eru vanalega næst fjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna hér á landi yfir sumarmánuðina. Og í síðasta mánuði lögðu rúmlega níu þúsund þýskir ferðamenn leið sína hingað. Framboð á flugi milli Þýskalands og Íslands hefur líka verið þónokkuð, mest á vegum Icelandair en einnig hefur Lufthansa flogið hingað frá Frankfurt og Munchen .

Í dag hefst svo áætlunarflug Wizz Air til Íslands frá Dortmund. Sú tímasetning er óheppileg því frá og með deginum í dag þurfa allir sem hingað til lands koma að fara í sóttkví í allt að sex daga.

Þessar hertu aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru ástæða þess að nú í morgunsárið hafa þýsk stjórnvöld gefið út viðvörun þar sem Þjóðverjum er ráðlagt að halda ekki til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytis Þjóðverjar.

Dönsk stjórnvöld hafa gefið út álíka viðvörun sem rekja má til kröfunnar um að allir fari í sóttkví við komuna til Íslands.