Þurfa að losa sig við flugvélar

Stjórnendur Norwegian vilja skera niður flugflota félagsins en eigendur flugvélanna eru einmitt orðnir helstu hluthafar flugfélagsins.

Norwegian vill losa sig við fjölda Dreamliner þota á næstunni. Mynd: Norwegian

Í flota Norwegian eru þrjátíu og sjö Boeing Dreamliner þotur og eru þær eingöngu nýttar í ferðir norska félagsins milli heimsálfa. Langflestar í áætlunarflug milli Evrópu og Norður-Ameríku. Á þeim markaði hafa umsvif Norwegian aukist gríðarlega síðustu ár og til marks um það var félagið orðið stærsta evrópska flugfélagið á JFK flugvelli í New York.

Nú telja stjórnendur Norwegian að ekki sé þörf fyrir um það bil fimmtán af þessum þrjátíu og sjö Dreamliner þotum. Alla vega ekki næstu misseri því í dag fljúga sárafáir milli heimsálfa. Þetta kom fram í máli stjórnenda félagsins á afkomufundi í gær og Dagens Næringsliv segir frá.

Þar er haft eftir Jakob Schram, forstjóra Norwegian, að það verði ekki einfalt að losna við flugvélarnar nú þegar eftirspurnin eftir þotum er lítil sem engin.

Schram bindur þó vonir við að stærstu eigendur flugfélagsins geti aðstoðað við að finna lausn á vandanum. Í þeim hópi eru nefnilegar nokkrar flugvélaleigur sem eignuðust stóran hlut í flugfélaginu í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þess í vor.

Þannig er flugvélaleigan BOC Aviation orðin næst stærsti hluthafinn í Norwegian. Og sú er einmitt ein þeirra sem leigir Icelandair MAX þoturnar umtöluðu líkt og Túristi fór yfir fyrr í sumar. En leigusalar Icelandair hafa samþykkt að rukka ekki leigu næstu tólf mánuði í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins.