Um tvö þúsund farþegar mættu ekki í flugið til Íslands

Frá og með gærdeginum þurfa allir í sóttkví við komuna til landsins. Það voru því margir sem ákváðu að halda sig heima í stað þess að fljúga til Íslands í gær.

Mynd: Isavia

Það voru um þrjú þúsund manns sem áttu bókað flugfar til Íslands í gær en rétt um þriðjungur þeirra kom til landsins samkvæmt heimildum Túrista. Um tvö þúsund farþegar hafa því hætt við Íslandsferðina sem skrifast líklega á kröfuna um að allir sem hingað koma skuli í sóttkví. Sú regla gekk í gildi á miðnætti í gær.

Gera má ráð fyrir að tjón þessa stóra hóps farþega hafi hlaupið á hundruðum milljóna króna. Flugmiði, báðar leiðir, kostar nefnilega sjaldnast minna en þrjátíu til fjörutíu þúsund krónur. Til viðbótar þá tapast það sem fólk hefur lagt út fyrir gistingu, leigu á bílum og afþreyingu nema fólk hafi verið með bókaða svokallaða alferð. Þá ber ferðaskrifstofan allt tjónið.