Yfirmaður tekjustýringar Icelandair hættur

Einn af lykilstarfsmönnum Icelandair hefur látið af störfum.

Bætt tekjustýring var hluti þeirra betrumbóta sem stjórnendur Icelandair töldu sig sjá í rekstrinum í byrjun þessa árs líkt og kom fram í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra félagsins nú í febrúar. En þá hafði Írinn Bryan O´Sullivan verið yfirmaður tekjustýringar flugfélagsins í tæpt ár.

Nú er O´Sullivan aftur á móti hættur hjá flugfélaginu. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista. Aðspurð um ástæður breytinganna þá segist hún ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.

Icelandair birtir ekki mánaðarlegar upplýsingar um hver fargjaldaþróunin er hjá félaginu. Öfugt við það sem norræn flugfélög eins og Norwegian og SAS gera. Þar með hefur verið erfitt að sjá hvort farmiðaverð félagsins hækkaði eftir fall WOW air.

Til viðbótar þá voru bætur frá Boeing vegna MAX þotanna bókfærðar sem farþegatekjur og því ómögulegt fyrir aðra en stjórnendur félagsins að vita hver fargjaldaþróunin hefur verið líkt og Túristi fjallaði ítarlega um.