15 milljarðar í að halda norskri ferðaþjónustu á floti til áramóta

Ríkisstjórn Noregs ætlar að halda áfram að auðvelda norskum ferðaþjónustufyrirtækjum að standa undir föstum kostnaði. Einnig fá fyrirtækin sérstakan styrk ef þau vilja gera breytingar á rekstrinum.

oslo opera
Við óperuhúsið í Ósló. Mynd: Visit Oslo

Þau norsku ferðaþjónustufyrirtæki sem sýnt geta fram á að tekjur þeirra hafa dregist saman um að minnsta kosti þrjátíu prósent geta sótt um áframhaldandi opinbera styrki til að standa undir föstum kostnaði.

Þetta er áframhald á núverandi rekstrarstyrkjum sem hafa verið í boði síðan í vor. Í heildina ætla norsk stjórnvöld veita einum milljarðri norskra króna til viðbótar í þessa aðgerð fram til áramóta.

Iselin Nybø, viðskiptaráðherra Noregs, kynnti þennan nýja björgunarpakka í dag og sagði að tilgangurinn væri að draga úr líkum á gjaldþrotum og auðvelda fyrirtækjunum að halda uppi starfsemi nú í vetur.

Til viðbótar við rekstrarstyrkina þá býðst fyrirtækjum í ferðaþjónustu fé sem nýta á í breytingar á starfseminni, til að mynda betrumbætur í umhverfismálum. Í þá aðgerð fer hálfur milljarður norskra króna eða 7,4 milljarðar króna.

Forsvarsfólk norsks ferðageira fékk þó ekki vilyrði frá ríkisstjórninni fyrir lækkun á virðisaukaskatti eins og þau höfðu bundið vonir við.