40 prósent afsláttur af sex ferðum

Nú tekur ríkið þátt í ferðakostnaði íbúa landsbyggðarinnar þegar þeir fljúga til höfuðborgarinnar.

Íbúar utan gráa svæðisins eiga rétt á 40 prósent niðurgreiðslu á flugmiðum til Reykjavíkur frá og með deginum í dag. Mynd: Vegagerðin

Nú hefur íslensk útgáfa af skosku leiðinni svokölluðu litið dagsins ljós. Því frá og með deginum í dag eiga íbúar á landsbyggðinni kost á fjörutíu prósent afslætti af flugmiðum til höfuðborgarinnar.

Þó aðeins ef ferðast er í einkaerindum og í mesta lagi verður hægt að fá niðurgreiðslu á sex flugleggjum á ári. Nú í ár nær endurgreiðslan til tveggja leggja sem jafngildir þá flugi báðar leiðir til Reykjavíkur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu hina nýju þjónustu í dag en hún ber heitið Loftbrú.

Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar líkt og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Alls nær verkefni því til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum samkvæmt vef Vegagerðarinnar.