65 prósent færri ferðamenn á heimsvísu

Covid-19 hefur sannarlega takmarkað ferðalög fólks milli landa.

Í Reykjavík líkt og fleiri borgum hefur ferðafólki fækkað verulega síðustu mánuði. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Á fyrri helmingi þessa árs fækkaði ferðafólki á heimsvísu um 65 prósent samkvæmt nýrri samantekt Ferðamálanefndar Sameinuðu þjóðanna. Er þá aðeins horft til þess fjölda sem ferðast milli landa. Í heildina dróst sá hópur saman um 440 milljónir ferðamanna fyrstu sex mánuði ársins.

Veltan í ferðaþjónustu heimsins minnkaði af þessum sökum fimmfalt meira en allt árið 2009 en þá, stuttu eftir efnahagshrunið, þótti samdrátturinn mikill. Hann var þó lítill miðað við það sem nú á sér stað.

Þegar horft til einstakra heimsálfa þá var fækkunin á fyrri hluta ársins mest í Asíu því þar fækkaði erlendum túristum um 72 prósent. Evrópa var í öðru sæti með 66 prósent en af einstökum svæðum í álfunni þá varð suðurhluti Evrópu verst úti.

Sérfærðingar ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir að það taki ferðamannastrauminn tvö og hálft til fjögur ár að verða álíka og í hann var í fyrra.