Samfélagsmiðlar

Aftur bara tvö á launaskrá

Bjarni Sævar Geirsson.

Hjónin Bjarni Sævar Geirsson og Svala Óskarsdóttir eiga og reka íbúðahótelið Reykjavik4you í Þingholtunum í Reykjavík. Bjarni Sævar svarar hér nokkrum spurningum Túrista um gang mála.

Hvernig er staðan hjá ykkur í dag? 

Staðan hjá okkur er að mörgu leyti góð miðað við aðstæður. Frá upphafi höfum við lagt áherslu á sveigjanleika í rekstri okkar fyrirtækja, byggt þau upp þannig að auðvelt sé að breyta um kúrs og laga sig að aðstæðum. Við hófum rekstur íbúðarhótelsins á vormánuðum 2009 í miðju fjármálahruninu við erfiðar aðstæður. Við höfðum rekið byggingarfyrirtæki hátt í 25 ár árin þar á undan og vorum með, auk annarra verka, tvö fjölbýlishús í byggingu í miðbæ Reykjavíkur sem voru komin á lokastig. 

Þarna þurrkaðist út á einni nóttu öll tækifæri og væntingar sem byggð höfðu verið upp árin á undan. Við þessar aðstæður var ákveðið að breyta um kúrs og stofna íbúðarhótel í þeim húsum sem við áttum þarna í miðbænum. 

Allt var lagt undir og við hjónin lögðum nótt við dag næstu árin að koma þessum rekstri okkar í horf. Þetta ævintýri hefur verið óendanlega gefandi og spennandi að takast á við. Það eru sérstök forréttindi að fá að taka á móti gestum allstaðar að úr heiminum, kynnast þeim, gefa góð ráð, fá klapp á bakið og sjá þá upplifa þau undur sem landið hefur upp á að bjóða.

Segja má að við búum að þessarri reynslu og erum því komin á kunnuglegar slóðir frá haustinu 2008. Forsenda fyrir rekstri hótels í þeirri mynd sem áður var er ekki til staðar þótt það muni vonandi fljótt breytast í jákvæða átt. Nú höfum við enn og aftur breytt um kúrs og erum farin að markaðsetja hluta íbúðanna fyrir langtímaleigu. 

Hafa opinber úrræði vegna kórónuveirukreppunnar nýst ykkur?

Við höfum nýtt okkur úrræði stjórnvalda að hluta til og þau hafa hjálpað ótrúlega mikið. Við búum líka að reynslu sem úr hruninu 2008 og höfum lagt höfuðáherslu á að niðurgreiða skuldir þegar vel gengur. Allir fjármunir sem myndast hafa undanfarin ár í fyrirtækinu hafa verið nýttir í það og fjárfestingar. Núna kemur þetta sér vel og fyrirtækin vel í stakk búin undir tímabundin áföll. 

Í sumar gætti ákveðinnar bjartsýni hjá okkur og við töldum forsendur til að halda lykil starfsfólki. Þær vonir brustu upp úr miðjum ágúst þegar hert var á landamæraskimun í framhaldi af nýrri Covidbylgju. Afbókanir streymdu inn og nú er staðan þannig að virkar bókanir út haustið eru teljandi á fingrum annarrar handar. Nú um mánaðarmótin mun síðasti starfsmaðurinn yfirgefa okkur að sinni og það eru ákveðin tímamót. Þetta verður í annað sinn, þau 35 ár sem við höfum verið í fyrirtækjarekstri, sem aðeins við tvö erum á launaskrá.

Hvernig er útlitið fyrir veturinn? 

Eins og staðan er núna er spiluð hörð vörn. Við erum búin að breyta skipulagi hótelsins og rétt um fjórðungur íbúðanna verður í skammtímaleigu en hinar til lengri tíma eða fram á næsta sumar til að byrja með. Af þeim sökum höfum við sett í loftið heimasíðu þar sem valdar íbúðir eru boðnar til leigu með öllum búnaði og húsgögnum.  

Hafið þið gert breytingar á aðstöðunni, t.d. til að auðvelda fólki að halda fjarlægð frá öðrum gestum? 

Hótelið okkar er byggt upp sem íbúðarhótel þar sem hver og einn gestur hefur til umráða fullbúna íbúð. Eins höfðum við þróað öflugt alhliða stjórntæki sem nær yfir alla þætti rekstursins. Inn í þessum hugbúnaði okkar er viðmót sem gerir gestunum kleift að stjórna því sem hann vill með símanum sínum. Til að mynda tékkað sig inn, pantað þrif eða aðra þjónustu, sótt upplýsingar tengdar íbúðinni og aðgang að öllum dyrum sem hann þarf aðgang að. Einnig gerir kerfið gestunum kleift að bókaðdagsferðir, panta borð á veitingastöðum og fleira.

Með þessarri sjálfvirkni erum við að fækka snertiflötum og gefa gestum ákveðið val um þjónustu. Við höfum verið með þetta kerfi í níu mánuði og það hefur reynst frábærlega. 

Því oft haldið fram að fyrirtæki í ferðaþjónustu verði að draga úr vægi milliliða í sölu og markaðssetningu. Hvernig horfa þau mál við ykkur?

Við höfum gert ýmsar markaðstilraunir en teljum þær ekki peninganna virði eins og staðan er núna því það er við algjört ofurefli er að etja. Stóru erlendu bókunarsíðurnar hafa í raun hertekið markaðinn og halda honum í ákveðinni gíslingu. Það er ekki óalgengt að þær krefjist þóknunnar á bilinu 18 til 30 prósent af hverri bókun í formi umboðslauma, afslátta eða sérkjara sem gististaðir þurfa að taka þátt í vilji þeir vera sýnilegir á þessum síðum.

Auðvitað má segja að gott sé að hafa aðgang að sölurásum út í hin stóra heim í gegnum þessa aðila en stundum finnst manni eins og fyrirtækið sé í hálfgerðri ánauð í þessu samstarfi.

Sjáiði fyrir ykkur einhverjar stórar breytingar þegar ástandið verður eðlilegra á ný?

Þegar þessu fári líkur held að við verðum fljót að ná vopnum okkar aftur. Ferðalangar munu streyma til landsins. Það sannaðist í sumar þegar gluggi opnaðist í stuttan tíma. Við verðum klár með okkar þjónustu þegar sá tími rennur upp og hlökkum til að taka þátt í þeim fjölmörgu tækifærum sem framundan eru.

Mín skoðum er sú að við hér á Íslandi höfum áfram flest til að bera sem gerir Ísland áhugaverðan valkost fyrir ferðaþyrsta ferðalanga. Fátt fólk, stórt land, einstaka náttúru, gisti-og veitingastaðir sem standast væntingar, fyrirtæki og fagfólk til staðar til að veita þá þjónustu og upplifun sem eftirspurn verður eftir. Öll þessi atriði mun fólk horfir til þegar ferðaþráin verður orðin óbærileg og aftur hægt að ferðast án takmarkana. 

En ef allt þetta á að vera til staðar þegar að kemur þá þarf að standa vörð um þau dýrmætu störf sem nú eru í hættu. Eins þau fyrirtæki sem voru í blómlegum rekstri fyrir Covid bylgjuna en róa nú lífróður.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …