Fáar brottfarir næstu daga

Það eru fáir á leið til og frá landinu þessa dagana og því hefur Icelandair dregið verulega úr framboði.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli en þangað munu þotur Icelandair fljúga áfram.

Sjö af þeim átján brottförum sem voru á dagskrá Keflavíkurflugvallar í dag voru felldar niður. Munar þar mestu um að Icelandair hætti við sex af níu ferðum.

Útlitið er ekki betra á morgun því þá hefur öllum ferðum félagsins verið aflýst nema til Amsterdam, Boston og Kaupmannahafnar. Á fimmtudag er svo bara ein ferð á dagskrá Icelandair og þá til dönsku höfuðborgarinnar. Þann dag eru hins vegar ennþá þrjár ferðir á vegum easyJet á áætlun og jafnmargar hjá Wizz Air.

„Núna eru áhrifin af hertum takmörkunum á landamærunum að koma fyllilega í ljós. Fyrstu dagana eftir að tvöfaldri skimun var komið á var töluverður fjöldi farþega að fara frá landinu þrátt fyrir að færri kæmu til landsins sem hélt áætlun okkar gangandi,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Hún bendir á að núna sé þetta að jafnast út því fáir komi og fari og verið sé að aðlaga framboðið að þeirri stöðu.

„Við vinnum þetta á sama hátt og við höfum verið að gera síðustu mánuði. Metum stöðuna og uppfærum áætlunina stutt fram í tímann og erum tilbúin að bregðast við breytingum, hvort sem það er að auka flug eða draga úr, eftir því hvernig eftirspurn og ferðatakmarkanir á mörkuðum okkar þróast,“ bætir Ásdís við.