Bíða með opnun hótelsins við Hörpu

Á næstu vikum opnar nýtt Marriott Edition í Tókýó. Áfram verður þó bið eftir því að fyrstu gestir hótelkeðjunnar geti innritað sig í Reykjavík.

Svona langt eru framkvæmdir við Marriott Edition hótel komnar í dag.

Skóflustunga að Marriott Edition hótelinu við Hörpu var tekin vorið 2017 eftir langan aðdraganda og endurteknar tafir. Vígslu hótelsins sjálfs hefur svo verið seinkað eftir að framkvæmdir hófust við bygginguna. Upphaflega var nefnilega gert ráð fyrir fyrstu gestunum sumarið 2019. Síðan var sú tímasetning flutt fram á haustið í fyrra.

Ekki héldu þau plön heldur og nú í febrúar var í fyrsta sinn auglýst eftir hótelstjóra og fleiri lykilstarfsmönnum. Þá var gefið út að hótelið myndi opna í ár en eins og gefur að skilja væru gestirnir þó væntanlega ekki margir ef þau áform hefðu gengið eftir. Flest hótel í höfuðborginni hafa nefnilega verið lokuð frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn hófst.

Núna er stefnt að því að opna þetta fimm stjörnu hótel við Hörpu á næsta ári samkvæmt því sem segir á heimasíðu Marriott Edition. Ekki fást þó nákvæmari upplýsingar um tímasetninguna hjá blaðafulltrúum hótelkeðjunnar.

Þrátt fyrir ástandið í heiminum í dag þá verður fyrsta Marriott Edition hótelið í Tókýó opnað síðar í þessum mánuði. Og fyrir áramót ættu ferðamenn í Róm einnig að geta bókað gistingu á þess háttar gististað.