Biðja ríkið um að bæta helming af tjóni flugfélaga

Forsvarsmenn þriggja stærstu flugfélaganna í Noregi sátu fund með ráðamönnum þar í landi í gær. Erindið var einfalt, þeir vilja bætur en ekki lán.

Frá flugvellinum í Ósló. MYND: AVINOR

Hinar miklu takmarkanir á ferðum fólks síðustu sex mánuði hafa kostað norsk flugfélög um 28 milljarða norskra króna. Þetta er mat samtaka norskra flugrekenda sem kynnt var á fundi forráðamanna stærstu flugfélaga landsins og norskra ráðherra í gær. Biðla flugfélögin til norska ríkisins að bæta þeim helmingin af þessu tjóni. Sú upphæð samsvarar um 212 milljörðum íslenskra króna.

Norska ríkisstjórnin hefur áður stutt við fluggeirann þar í landi vegna heimsfaraldursins. Strax í vor fengu til að mynda flugfélög eins og SAS og Wideröe ríkisábyrgðir á lán. Þá fékk Norwegian líka loforð fyrir samskonar aðstoð en þó aðeins ef félagið næði að endurskipuleggja fjárhaginn. Það tókst svo í sumarbyrjun og Norwegian fékk lánalínu upp á fjörutíu og fimm milljarða íslenskra króna frá norskum skattgreiðendum.

Það dugar félaginu þó ólíklega til að komast í gegnum veturinn líkt og áður hefur komið fram. Jakob Schram, forstjóri Norwegian, mætti því til fundarins í gær og ítrekaði ósk sína um frekari stuðning en hvorki dönsk né sænsk stjórnvöld hafa viljað veita félaginu fé.

 Á sama tíma stefnir í að hlutur ríkjanna tveggja í SAS muni aukast umtalsvert eftir hlutafjárútboð félagsins nú í haust. Til viðbótar muni Svíar og Danir einnig kaupa bróðurpartinn af nýjum skuldabréfum félagsins.

Þrátt fyrir allan þennan stuðning þá var fulltrúi SAS líka á fundinum í gær enda tekur félagið þátt í þessari nýju kröfugerð norskra flugrekenda.  

Samkvæmt frétt Dagens Næringsliv þá gáfu fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar ekki út nein loforð eftir fundinn með flugfélögunum í gær