Draga úr áformum um vetrarferðir

Stjórnendur Wizz Air sjá ekki fram á að geta haldið úti þeirri áætlun sem áður hafði verið gefin út.

Um leið og slakað var á ferðatakmörkunum innan Evrópu nú í sumarbyrjun þá opnuðu stjórnendur Wizz Air nýjar flugleiðir af miklum móð. Þetta ungverska flugfélag hóf til að mynda að fljúga hingað frá Mílanó á Ítalíu og þýsku borginni Dortmund. Í heildina er félagið með Íslandsflug á dagskrá frá ellefu evrópskum borgum.

Síðustu vikur hafa lönd aftur á mótiu lokast á ný eða sett strangari kröfur um sóttkví. Þar með ætla stjórnendur Wizz Air að skera niður framboð vetrarins og gera þeir nú ráð fyrir að afköstin í vetur verði ekki nema um helmingur af því sem var í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu nú í morgun.

Í dag stendur Wizz Air fyrir einni ferð héðan, til Mílanó. Á morgun eru þrjár ferðir í boði og svo ein á sunnudag. Svo er að sjá hvað verður um þær brottfarir sem eru á áætlun félagsins næstu vikur og mánuði.