Ekkert álit frá WOW air

Forsvarsfólk endurreisnar WOW air taldi ekki þörf á að taka þátt í umræðu um aðstoð ríkisins við Icelandair Group.

Áfram er unnið að því að koma WOW air í loftið á ný. MYND: LONDON STANSTED

Það hafa borist ellefu umsagnir til fjárlaganefndar vegna frumvarps um ríkisábyrgð á fimmtán milljarða lánalínu til Icelandair. Ein þeirra er frá Play en fjárlaganefnd óskaði sérstaklega eftir áliti frá forsvarsmönnum þess.

Play er þó ekki komið með flugrekstrarleyfi og upphafleg áform félagsins um að hefja sölu flugmiða í nóvember í fyrra gengu ekki eftir. Endurkoma WOW air hefur líka dregist á langinn en hópur fjárfesta, undir stjórn hins bandaríska US Aerospace Partners, hefur unnið að henni síðustu tvö ár.

Fjárlaganefnd óskaði aftur á móti ekki eftir áliti frá WOW air og þaðan hefur heldur ekki borist nein umsögn.

 „Við töldum ekki þörf á því að blanda okkur í umræðuna enda teljum við ljóst að meirihluti sé fyrir því á Alþingi að veita Icelandair Group þessa ríkisábyrgð, segir Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW air, spurður út í þessa þögn. Hann staðfestir að áfram sé unnið að endurreisn flugfélagsins.

Meðal þess sem US Aerospace Partners keyptu úr þrotabúi WOW air var vörumerki flugfélagsins og vefslóðir. Það eru einmitt þær eignir sem íslenska ríkið fær veð í hjá Icelandair Group vegna ríkisábyrgðarinnar. Auk þess gæti ríkið fengið veð í afgeiðslutímum á Heathrow í London og JFK flugvelli í New York.