Engin formleg beiðni um lægra starfshlutfall flugmanna

Nú fljúga þotur Icelandair mun færri ferðir en ráðgert var. Af þeim sökum hefur starfshlutfall fastráðinna flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair verið fært niður í 75 prósent. Ekki hefur verið farið fram á það sama við flugmenn. Formaður FÍA telur ákvarðanir um hertar aðgerðir við landamæri hafa stórskaðað flugrekstur og ferðaþjónustu.

Mynd: Icelandair/ Sigurjón Ragnar

Næstu átta mánuði verður starfshlutfall flug­freyj­a og flugþjón­a Icelanda­ir aðeins 75 prósent. Er þessi leið farin til að koma í veg fyrir hópuppsagnir samkvæmt frétt Mbl.is en Icelandair hefur fellt niður fjölda flugferða eftir að gerð var krafa um að allir færu í fimm daga sóttkví við komuna til landsins. Sú regla gekk í gildi þann 19. ágúst.

Spurður hvort Icelandair hafi líka farið fram á starfshlutfall flugmanna yrði fært niður í 75 prósent þá segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, að ekki hafi borist formleg beiðni um slíkt.

„Hlutastörf og leyfi hafa þó verið rædd ásamt orlofsmálum og öðru, án þess að nákvæmar prósentur hafi verið settar niður,“ segir Jón Þór í svari til Túrista. 

Hann segir stöðug og góð samskipti milli Icelandair og flugmanna félagsins vegna síbreytilegra aðstæðna í flugheiminum og allar góðar hugmyndir eru til skoðunar sem geta aukið stöðugleika. 

„FÍA og Icelandair hafa rætt ýmsar leiðir til að styrkja enn frekar samkeppnisstöðu flugfélagsins. Áhersla er lögð á að geta hafið öfluga sókn á mörkuðum um leið og rofar til. Þjálfunarmál flugmanna vegna endurkomu Boeing 737 Max eru þar ofarlega á baugi. Flugmenn hafa staðið þétt með fyrirtækinu og munu gera áfram,“ bætir Jón Þór við.

Hann telur þó að ákvarðanir stjórnvalda um hertar aðgerðir á landamærum hafa stórskaðað rekstrarumhverfi flugrekstraraðila og ferðaþjónustunnar í heild sinni. „Færa má rök fyrir því að meðalhófs hafi ekki verið gætt í þeim ákvörðunum. Skaðinn sem valdið hefur verið er óbætanlegur. Það er einlæg von okkar flugmanna að stjórnvöld taki þessar ákvarðanir til endurskoðunar hið fyrsta,“ segir Jón Þór að lokum.