Fækkunin hjá Airbnb miklu meiri en á hótelunum

Gistinóttum hér á landi á vegum Airbnb og álíka fyrirtækja fækkaði um nærri níu af tíu í júlí.

Framboð á gistirými á vegum Airbnb í Reykjavík hefur vafalítið dregist saman í sumar. Alla vega drógust umsvif bandarísku gistimiðlunarinnar verulega saman í júlí samkvæmt Hagstofunni. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Greitt var fyrir 688 þúsund gistinætur hér á landi í júlí en þær voru nærri einni milljón fleiri á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nam 58 prósentum í heildina en hann var ögn minni á hótelum og gistiheimilum eða 54 prósent.

Aftur á móti fækkaði gistinóttum sem greitt var fyrir í í gegnum vefsíður eins og Airbnb um 87 prósent í júlí. Þetta sýnir svokallaður Skammtímahagvísir Hagstofunnar fyrir ferðaþjónustu. Þar er samdrátturinn í óskráðum gistinóttum í bílum og innigistingu metinn 73 prósent.

Samhliða gríðarlegri fækkun erlendra ferðamanna þá hefur framboð á gistingu minnkað umtalsvert eða um 56 prósent í júlí. Nýting á gistirými hefur sömuleiðis fallið eða úr 81 prósenti í 47 prósent þegar horft er til júlí í sumar.