Fargjöldin ruku ekki upp eftir að Ísland bættist við bannlistann

Eftirspurn eftir flugmiðum héðan til London í dag virðist ekki vera mikil þrátt fyrir að nú þurfi allir í sóttkví við komuna til Bretlands.

london oxfordstraeti
Frá Oxfordstræti í London. Mynd: Visit London

Allir þeir sem ferðast frá Íslandi til Bretlands þurfa í tveggja vikna sóttkví við komuna þangað. Þessi nýja regla gildir frá og með morgundeginum en bresk yfirvöld kynntu þessa breytingu í gær eins og búist var við.

Danmörk bættist einnig við svokallaðan „no-go“ lista Breta en á honum eru þau lönd þar sem tíðni nýrra smita er hærra en tuttugu á hverja hundrað þúsund íbúa. Gengi nýsmita í Bretlandi er þó rúmlega tvöfalt hærra en sem nemur þessu viðmiði.

Undanfarnar vikur hafa tilkynningar breskra stjórnvalda um breytingar á bannlistanum orðið til þess að flugfargjöld til Bretlands, frá viðkomandi löndum, hafa rokið upp. Það varð til að mynda tilfellið þegar Króatíu og Portúgal lentu á listanum fyrr í þessum mánuði.

Engin merki er um þess háttar í flugi héðan til Bretlands sem er þá vísbending um að hér á landi eru nær engir breskir ferðamenn. Farmiðinn með easyJet nú í morgunsárið til London frá Keflavíkurflugvelli kostar til að mynda litlu meira í dag en í gær eða um nítján þúsund krónur.

Icelandair flýgur aftur á móti ekki til Bretlands fyrr en á sunnudag en þá verður hin nýja regla gengin í gildi. Allir farþegar í vélinni þurfa þá í tveggja vikna sóttkví í Bretlandi nema þá þeir sem fljúga áfram frá London út í heim.

Finnland og Danmörk bættu Íslandi líka á svarta lista hjá sér í gær.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.