Farþegahópurinn rétt um fjórðungur af því sem var

Það voru fleiri sem flugu með SAS í ágúst en í júlí en samdrátturinn er engu að síður mikill.

Þota SAS á flugi við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. Mynd: Arlanda

Það voru 699.000 farþegar sem nýttu sér ferðir SAS í ágúst. Þetta er samdráttur upp á 73 prósent milli ára. Áfram er niðursveiflan sem rekja má til Covid-19 heimsfaraldursins því gríðarleg en engu að síður fjölgaði farþegunum um tólf þúsund frá því í júlí.

Framboð SAS á flugsætum í ágúst var 71,1 prósent minna en á sama tíma í fyrra þegar horft er til áætlunarflugsins. Eftirspurnin eftir aukist meira í Skandinavíu en á öðrum mörkuðu og það stýri að hluta framboði dagsins samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þannig mun SAS auka innanlandsflug í Danmörku, Svíþjóð og Noregi á næstunni og til viðbótar taka upp þráðinn í flugi til átján áfangastaða í Evrópu. Auk þess er ætlunin að halda úti reglulegum ferðum til New York, Chicago og San Francisco í Bandaríkjunum nú í haust.