Fimmti hver stjórnandi hjá Lufthansa missir stöðuna

Þýska ríkið tók fimmtungs hlut í Lufthansa Group gegn því að styðja þessa stærstu flugfélagasamstæðu Evrópu í gegnum heimsfaraldurinn. Engu að síður þarf að skera starfsemina verulega niður.

Stjórnendahópur Lufthansa dróst verulega saman fyrir fimm árum síðan í tengslum við endurskipulagningu þýsku flugfélasamsteypunnar. Nú er aftur komið að niðurskurði í efri lögum fyrirtækisins því ætlunin að fækka stjórnendum um fimmtung.

Í tilkynningu segir að ástæða breytinganna sé sú að fókusinn eigi í auknum mæli að vera á kjarnastarfsemina. Lufthansa, eins og fleiri flugfélög, er í mikilli krísu vegna Covid-19 faraldursins.

Það eru þó ekki aðeins breytingar í farvatninu hjá stjórnendum innan Lufthansa samstæðunnar því útlit er fyrir að segja þurfi upp ennþá fleiri starfsmönnum en þessum 22 þúsundum sem áður hafði verið tilkynnt um.

Til viðbótar við allt þetta þá meta forráðamenn Lufthansa það svo að sætaframboð félagsins út þetta ár verði aðeins á milli tuttugu og þrjátíu prósent af því sem var á sama tíma í fyrra. Fyrri áætlun gerði ráð fyrir helmings afköstum út árið.