Fleiri hættu við kaup á MAX þotum í ágúst

Boeing hefur ekki getað afhent MAX þotur síðan í mars í fyrra sem hefur gert kaupendum kleift að draga úr pöntunum. Það gerðir Icelandair til að mynda í síðasta mánuði.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing í Bandaríkjunum. MYND: SPUNDERBRUCE / CREATIVE COMMONS 4.0

Það bárust pantanir á fimm nýjum Boeing MAX þotum í ágúst. Það voru þó fleiri sem voru afbókaðar eða samtals sautján samkvæmt frétt Flight Global. En líkt og áður hefur komið fram féll Icelandair frá kaupum á fjórum þess háttar þotum í síðasta mánuði.

Þar með verða tólf þess háttar flugvélar í flota Icelandair næstu ár í stað sextán. Og þar á bæ eru bundnar vonir við að MAX þoturnar verði farnar að flytja farþega félagsins næsta vor. En nú er eitt og hálft ár liðið frá því að allar þotur af þessari gerð voru kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, gerir þó ráð fyrir að það muni ekki taka langan tíma fyrir farþega að taka þessar flugvélar í sátt líkt og haft var eftir honum í fréttum Stöðvar 2 í gær.