Flugfarþegum hefur fækkað um ríflega helming í Vestmannaeyjum

Að jafnaði áttu 32 farþegar á dag leið um flugvöllinn í Vestmannaeyjum í fyrra. Nú er óvissa um framhald á áætlunarfluginu þaðan.

Flugfélagið Ernir leggur niður áætlunarflug sitt til og frá Vestmannaeyjum á föstudaginn. Þetta var tilkynnt í gær og hafði Mbl.is það eftir Herði Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Ernis, að flug á þess­ari leið beri sig ekki og sé því sjálfhætt.

Ern­ir tók við flugi til Eyja í ág­úst­byrj­un 2010 en Land­eyjahöfn, þangað sem Herjólf­ur sigl­ir, var tek­in í notk­un mánuðinum á undan.

Farþegatölur Isavia sýna að síðan þá hefur þeim fækkað ört sem fljúga til og frá Vestmannaeyjum. Árið 2010 fóru rúmlega tuttugu og sex þúsund farþegar um flugstöðina í Eyjum en í fyrra voru þeir tæplega 12 þúsund eða rétt 32 á dag að jafnaði.

Gera má ráð fyrir að fjöldinn sé ennþá minni í dag vegna Covid-19. Í júlí fækkaði farþegum á innanlandsflugvöllunum til að mynda um 41 prósent.