Forði flugfélaga dugar varla út veturinn

Áfram er útlitið dökkt í flug- og ferðageiranum og það gæti reynst flugfélögum erfitt að komast í gegnum veturinn samkvæmt samantekt IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga.

gatwick braut

Sumarvertíðin skiptir sköpum í rekstri flugfélaga og til marks um það þá tvöfaldast sætaframboðið hjá Icelandair á þessum háannatíma. Að þessu sinni var uppskera sumarsins aftur á móti engin hjá flugfélögunum.

Af þeim sökum er útlitið fyrir veturinn víða dökkt því samkvæmt nýrri greiningu IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, þá eiga flugfélög að jafnaði aðeins fé sem dugar þeim í 6,3 mánuði.

Er þar horft til lausafjárstöðu flugfélaga um mitt þetta ár og svo hins vegar svokallaðs fjármagnsbruna á öðrum fjórðungi. Í samantekt IATA er tekið fram að þessi bruni hafi væntanlega minnkað töluvert síðustu mánuði eftir alls kyns aðhaldsaðgerðir.

Á móti komi þó að óljóst er um áframhald á opinberum stuðningi við reksturinn, til að mynda vegna launa. Sérfræðingar IATA taka fram að flugfélög geti aflað sér meira fjármagns með útgáfu á nýju hlutafé en sú leið sé ekki öllum fær.

Icelandair er eitt fárra flugfélaga sem nú þegar hefur staðið fyrir útboði og var umframeftirspurnin þar töluverð.