Gera hlé á nærri öllu Íslandsflugi

Nú hafa ferðatakmarkanir verið hertar víða í Evrópu og í takt við það dregur Wizz Air úr umsvifum sínum. Áætlunarflug félagsins hingað til lands er þar engin undantekning.

Þotur Wizz Air verða sjaldséðar við Leifsstöð næstu vikur. Mynd: Wizz Air

Þotur hins ungverska Wizz Air fljúga alla jafna til Keflavíkurflugvallar frá ellefu evrópskum borgum. Næstu vikur mun félagið þó aðeins bjóða upp á Íslandsflug frá pólskum borgunum Varsjá og Gdansk auk ferða til Mílanó á Ítalíu. Reyndar verður gert hlé á ferðum til þeirrar ítölsku þann 24. október og þráðurinn tekinn upp í byrjun desember.

Á sama tíma gera stjórnendur Wizz Air ráð fyrir að hefja á ný flug til Íslands frá Vínarborg í Austurríki, Búdapest í Ungverjalandi, Riga í Lettlandi, Katowice í Póllandi og Luton flugvelli við Lundúnir, höfuðborg Bretlands.

Áætlunarferðirnar hingað frá Wroclaw í Póllandi og Dortmund í Þýskalandi hefjast fyrr eða 26. október. Flugið til pólsku borgarinnar Kraká er hins vegar ekki á dagskrá á ný fyrr en í vor.

Niðurskurðurinn hjá Wizz Air einskorðast alls ekki við flug til Íslands því félagið hefur dregið verulega úr allri áætlun sinni nú í haust. Stjórnendur Wizz Air hafa einnig gefið í skyn að vetrarprógrammið verði töluvert minna en lagt var upp með vegna aukinna ferðatakmarkanna í Evrópu.

Það gæti því farið svo að þotur Wizz Air byrji ekki að streyma til landsins á ný í byrjun desember eins og nú er gert ráð fyrir.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.