Mikil þátttaka í útboði Icelandair kom forstjóra Play ekki á óvart

Stjórnendur Play hafa ekki trú á áætlun starfsbræðra sinn hjá Icelandair um viðspyrnu þess félags. Forstjóri Play óskar engu að síður Icelandair innilega til hamingju með vel heppnað hlutafjárútboð.

Forsvarsmenn Play voru meðal þeirra sem sendu inn umsögn til Alþingis þegar ríkisábyrgð til Icelandair Group var þar til umræðu um síðustu mánaðamót. Var það mat þeirra hjá Play að framtíðaráform Icelandair væru óraunsæ og verið væri að veita löskuðum rekstri óverðskuldað framhaldslíf.

Nú liggur fyrir að þátttaka að umframeftirspurn var í útboði Icelandair. Spurður hvort það hafi komið honum á óvart þá segir forstjóri Play, Arnar Már Magnússon, svo ekki vera.

„Þessi þátttaka í útboðinu kemur ekkert sérstaklega á óvart enda hefur Icelandair spilað stórt hlutverk í íslenskri ferðaþjónustu. Við hjá PLAY óskum Icelandair innilega til hamingju með vel heppnað hlutafjárútboð. Núna blasir við skemmtileg samkeppni tveggja íslenskra flugfélaga sem við teljum jákvætt skref fyrir framtíðaruppbyggingu í ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Arnar Már í svari til Túrista.