Helmingi flugmanna sagt upp en starfshlutfall skert hjá flugfreyjum og flugþjónum

Nú missa 68 flugmenn Icelandair vinnuna en fyrir voru stöðugildin aðeins 138.

Flugumferðin til og frá landinu hefur dregist saman á ný og stór hluti flugflota Icelandair nýtist því ekki þessa dagana.

Áttatíu og átta starfsmenn Icelandair Group missa vinnuna nú um mánaðamótin. Stærsti hluti þess hóps eru flugmenn eða sextíu og átta einstaklingar en þar að auki er um að ræða tuttugu starfsmenn af öðrum sviðum fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Icelandair segir að með þessum aðgerðum sé verið að bregðast við auknum samdrætti í flugi og áframhaldandi óvissu.

Þetta eru önnur mánaðamótin í röð sem gripið er til verulegs niðurskurðar hjá áhöfnum Icelandair. Um þau síðustu var starfshlutfall flugfreyja og flugþjóna fært niður í sjötíu og fimm prósent næstu átta mánuði. Var þetta gert til að koma í veg fyrir hópuppsagnir samkvæmt frétt Mbl.is.

Engin formleg beiðni um þess háttar breytingar kom þó til Félags íslenskra atvinnuflugmanna líkt og fram kom í svörum formanns félagsins við fyrirspurn Túrista. Nú liggur aftur á móti fyrir að helmingur flugmanna félagsins missir vinnuna því fyrir voru stöðugildin aðeins 138.

Til viðbótar við þessa áttatíu og átta starfsmenn sem nú missa vinnuna þá ljúka nokkrir tugir starfsmann,a sem voru á tímabundnum ráðningarsamningum, störfum nú í lok mánaðar.

„Í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs er félagið […] vel í stakk búið til að komast í gegnum þá óvissu sem framundan er og jafnframt bregðast hratt við um leið og aðstæður leyfa. Félagið vonast til að hægt verði að draga uppsagnir til baka um leið og ástandið batnar og eftirspurn eftir flugi tekur við sér á ný,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.