Icelandair bætist í hóp flugfélaga sem nota lausn Dohop

Nýtt samstarf easyJet og Icelandair byggir á leitarvél hins íslenska Dohop. Farþegarnir eru jafnframt á ábyrgð Dohop ef þeir missa af tengiflugi.

Farþegar easyJet geta brátt bókað flug með Icelandair á heimasíðu breska félagsins. Sú lausn byggir á bókunarvél hins íslenska Dohop. MYND: EASYJET

Ef þú flýgur með easyJet frá Keflavíkurflugvelli til London og svo þaðan beint áfram til Spánar þá ertu á eigin vegum ef þú missir af seinna fluginu, til dæmis vegna seinkunar á því fyrra. Lággjaldaflugfélög taka nefnilega almennt ekki ábyrgð á tengifarþegum öfugt við það sem WOW gerði og Play ætlar líka að gera.

Haustið 2017 hóf easyJet reyndar að bjóða upp á tengiflug í gegnum svokallaða Worldwide þjónustu en hún byggir á leitarvél hins íslenska Dohop. Og það sem meira er þá er það Dohop sjálft sem ber ábyrgð á farþegunum ef þeir missa af tengifluginu.

Þessi leitarvél Dohop tengir ekki aðeins saman flugferðir innan leiðakerfis easyJet því hún finnur líka hentugar ferðir með þeim sextán flugfélögum sem easyJet á í samvinnu við. Og brátt bætist Icelandair við þann lista.

„Við erum mjög ánægð með að Icelandair bætist í hóp samstarfsflugfélaga easyJet Worldwide. Tugir milljóna flugfarþega ferðast á ári hverju til og frá Evrópu og Icelandair er án efa kærkomin viðbót fyrir viðskiptavini okkar sem eru að leita að góðum og einföldum tengingum milli Evrópu og Norður Ameríku,“ segir Johan Lundgren, forstjóri easyJet, í tilkynningu.