Ísland á rauðan lista hjá Finnum

Finnsk stjórnvöld hafa gefið út nýjar reglur varðandi komur ferðamanna.

helsinki yfir
Horft yfir Helsinki. Mynd: Ferðamálaráð Helsinki

Um síðustu helgi var slakað á kröfunni um að allir ferðamenn frá Íslandi, Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð þyrftu í sóttkví við komuna til Finnlands. Nú hafa stjórnvöld í Finnlandi aftur á móti ákveðið að frá og með mánudeginum gildir gamla reglan á ný.

Þar með verða þeir sem ferðast héðan til Finnlands að fara í sóttkví við komuna til Finnlands. Það sama gildir um ferðalög frá Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Slóvakíu og Eisltani.

Þar með geta eingöngu íbúar sjö Evrópuríkja ferðast til Finnlands án þess að fara í sóttkví við komuna. Um er ræða Kýpur, Lettland, Litháen, Lichtenstein, Pólland, San Marínó og Vatikanið samkvæmt því sem fram kemur í frétt Yle.

Líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá verður áfram bið eftir því að Finnair hefji flug til Íslands á ný. Að sama skapi hefur Icelandair ekki ennþá sett flug til Helsinki á dagskrá.