Ísland gæti bæst við breska bannlistann í dag

Hröð fjölgun nýrra Covid-19 smita hér á landi gæti orðið til þess að Bretum verði ráðlagt frá ferðalögum til Íslands.

London Piccadilly Julian LoveLondon and Partners
Alla jafna er flogið héðan til nokkurra borga í Bretlandi. Nú takmarkast samgöngurnar við flugvellina í London. Mynd: Visit London

Nú þegar fjöldi Covid-19 smita er á uppleið víðsvegar í Evrópu þá viðbúið að fleiri lönd bætist við lista breskra stjórnvalda yfir þau svæði sem þegnum landsins er ráðlagt að ferðast ekki til. Að sama skapi verða allir þeir sem koma frá þessum löndum að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Bretlands.

Í frétt Independet eru leiddar líkur að því að bæði Ísland og Danmörk bætist við bannlistann síðar í dag. Ástæðan er sú að fjöldi nýrra smita hér á landi og í Danmörku er komin langt yfir breska viðmiðið um tuttugu smit á hverja eitt hundrað þúsund íbúa.

Í Bretlandi er tíðni nýrra smita reyndar ennþá hærri eða fjörutíu og fjögur smit. Á Íslandi er talan komin upp í 69 og 63 í Danmörku segir í frétt Independent.

Grant Sharp, samgönguráðherra Bretlands, hefur tilkynnt um breytingar á þessum svokallaða „no-go“ lista á fimmtudögum og þá hafa Bretar aðeins nokkra daga til að koma sér heim til að sleppa við sóttkví. Það hefur valdið umtalsverðri hækkun á fargjöldum frá viðkomandi löndum, þ.e. var til að mynda raunin þegar Króatía og Portúgal fóru á listann.

Ekki er að sjá að þess háttar verðhækkanir hafi orðið í flugi frá Keflavíkurflugvelli til Bretlands. Þannig kostar flugmiði með easyJet héðan á morgun til London rétt um fimmtán þúsund krónur. Næsta ferð Icelandair til bresku höfuðborgarinnar er ekki á dagskrá fyrr en á sunnudag og farið er á 37.045 krónur.

Nú er að sjá hvort Icelandair bæti við ferð til Lundúna á morgun eða hinn ef Ísland endar á bannlista Breta síðar í dag. Aftur á móti gæti staðan verið sú að á Íslandi séu einfaldlega ekki margir sem þurfa til Bretlands á næstunni. Allt frá því að krafa var gerð hér á landi um að allir færu í sóttkví við komuna til landsins hefur flugumferðin nefnilega snarminnkað.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengurNánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.