Íslandsbanki og Landsbanki fara alla leið með Icelandair

Ríkisbankarnir tveir munu sölutryggja ríflega fjórðung af hlutafjárútboði Icelandair. Sömu bankar eru einnig meðal helstu kröfuhafa félagsins í dag og munu jafnframt dekka tíund af ríkisábyrgðinni sem nú er til umræðu á Alþingi. Til viðbótar kemur svo sjö milljarða rekstrarlína.

Eftir tvær vikur hefst hlutafjárútboð Icelandair Group þar sem ætlunin er að safna að lágmarki tuttugu milljörðum króna í nýtt hlutafé. Af þeirri upphæð ætla Íslandsbanki og Landsbankinn að tryggja sölu á samtals sex milljörðum króna eða rúmlega fjórðungi.

Samkomulag þess efnis var kynnt seinnipartinn í dag. Í tilkynningu segir að samningurinn sé háður því skilyrði að fjárfestar skrái sig fyrir að lágmarki fjórtán milljörðum króna.

Íslandsbanki og Landsbanki, sem báðir eru í eigu hins opinbera, eru í dag meðal helstu lánadrottna Icelandair. Landsbankinn lánaði til að mynda Icelandair Group áttatíu milljónir dollara í mars í fyrra gegn veði í tíu Boeing 757 þotum. Sú lánsfjárhæð jafngildir um ellefu milljörðum króna í dag.

Skuld Icelandair Group við Íslandsbanka skiptir einnig milljörðum króna og hefur bankinn meðal annars veð í fasteignum og flughermum samsteypunnar.

Auk þessa þá ætla þessir sömu bankar, ásamt íslenska ríkinu, að standa undir samtals sextán milljarða króna lánalínu til Icelandair Group. Ríkið tryggir níutíu prósent en bankarnir tíund eða samtals 1,6 milljarð króna.

Ofan á allt þetta bætist svo sjö milljarða kr. rekstrarlína frá Landsbankanum og Íslandsbanka til Icelandair samstæðunnar. Í kynningu fulltrúa fjármálaráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd í síðustu viku kemur fram að fjórir milljarðar komi frá Íslandsbanka og þrír frá Landsbankanum.