Íslandsflugið í sjötta sæti

Það voru 23.407 farþegar sem flugu milli Íslands og Kaupmannahafnar í ágúst.

Samdrátturinn á Kaupmannahafnarflugvelli í ágúst nam 79 prósentum í farþegum talið. Íslandsflugið þaðan dróst þó hlutfallslega minna saman eða um tvo þriðju samkvæmt tölum frá danska flugvellinum.

Samtals flugu 23.407 farþegar milli Íslands og Kaupmannahafnar í ágúst en fjöldinn var 68.768 á sama tíma í fyrra. Þá var flugleiðin til Íslands sú sjöunda vinsælasta frá Kaupmannahafnarflugvelli en núna hún einu sæti ofar eða í sjötta sæti.

Þess má geta að Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll, veitir ekki svona góðar upplýsingar um farþegastrauminn þar á bæ.

Samkvæmt talningu Túrista voru í boði 184 áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar í ágúst sem þýðir að 127 farþegar hafa að jafnaði setið í þotunum á þessari flugleið. Það er þónokkuð undir meðaltalinu í fyrra sem nam 170 farþegum.