Kæra úthlutun á innanlandsflugi

Þann 1. nóvember á Norlandair að taka við áætlunarflugi á vegum Vegagerðarinnar til þriggja áfangastaða. Ernir hefur sinnt ferðunum síðustu ár og þar á bæ þótti full ástæða til að kæra niðurstöðu útboðsins.

Flugvélar Norlandair munu frá og með 1. nóvember sinna áætlunarflugi á vegum Vegagerðarinnar til Bíldudals. MYND: ISAVIA

Í byrjun sumars var boðið út áætlunarflug til næstu þriggja ára á vegum Vegagerðarinnar frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði annars vegar og hins vegar frá höfuðborginni til Gjögurs og Bíldudals. Tilboð bárust frá Erni, sem hefur sinnt þessum flugleiðum síðustu ár, en einnig frá Norlandair og Flugfélagi Austurlands.

Tilboð þess síðastnefnda var það lægsta og töluvert undir kostnaðaráætlun líkt og fjallað var um hér í sumar. Tilboði Flugfélags Austurlands var þó ekki tekið þar sem það uppfyllti ekki öll þau skilyrði sem sett voru í útboðinu samkvæmt heimildum Túrista. 

Ríkiskaup komust að sömu niðurstöðu um tilboð Ernis og fékk Norlandair flugleiðunum þremur úthlutað. Forsvarsmenn Ernis hafa kært þá niðurstöðu og í samtali við Túrista segir Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ernis, að full ástæða hafi verið til þess. 

Tilboð Norlandair í flug til Hafnar í Hornafirði hljóðaði upp á 677 milljónir króna en Ernir bauð 531 milljón kr. og Flugfélag Austurlands 370 milljónir kr. Kostnaðaráætlum Vegagerðarinnar var upp á hálfan milljarð króna. 

Aftur á móti gerði áætlun Vegagerðarinnar ráð fyrir að kostnaður vegna flugs til Gjögurs og Bíldudals yrði 726 milljónir. Tilboð Norlandair var upp á 612 milljónir. Ernir bauð 797 milljónir og Flugfélag Austurlands 392 milljónir.