Lægri virðisaukaskattur, lengri brúarlán og styrkir fyrir föstum kostnaði

Horfurnar í norskri ferðaþjónustu eru dökkar og forsvarsfólk greinarinnar vonast eftir auknum opinberum stuðningi.

Stegestein útsýnispallurinn í Sogn og Fjordene í vesturhluta Noregs. Mynd: Robert Bye / Unsplash

Kórónuveirukreppan er síður en svo gengin yfir í Noregi og raunverulegar líkur eru á að 110 þúsund starfsmenn í norskri ferðaþjónustu missi vinnuna núna í haust. Þetta fullyrðir Kristin Krohn Devold, framkvæmdastjóri Samtaka norskra ferðaþjónustufyrirtækja, í viðtali við E24.

Devold kallar eftir áframhaldandi fjárhagsaðstoð hins opinbera við atvinnugreinina en í dag munu norskir ráðamenn leggja fram nýjar tillögur um aðgerðir vegna afleiðinga Covid-19 faraldursins.

Meðal þess sem Devold og forsvarsfólk norskra ferðaþjónustufyrirtækja biður um er framlenging á styrkjum til að standa undir föstum greiðslum. Reglan hefur verið sú að þau ferðaþjónustufyrirtæki í Noregi sem misst hafa að minnsta kosti þrjátíu prósent af tekjum sínum fá styrki til að standa undir helmingi fasts kostnaðar.

Einnig vonast Samtök norskra ferðaþjónustufyrirtækja eftir að frestur til að greiða upp einskonar brúarlán verði lengdur úr þremur árum í sex. Auk þess kallar ferðaþjónustan eftir lækkun á virðisaukaskatti niður í sex prósent.

Niðurstöður nýrrar könnunar meðal sex hundruð ferðaþjónustufyrirtækja í Noregi sýna að stjórnendur þeirra er svartsýnni á framtíðina en þeir voru í sumar. Þá sagðist fjórðungur þeirra óttast gjaldþrot en núna er hlutfallið komið upp í 35 prósent. Reyndar var það ennþá hærra í vor eða 63 prósent.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengurNánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.