Launagreiðslur í ferðaþjónustu 31 prósenti lægri

Niðursveiflan í ferðaþjónustu er mun meiri en í öðrum atvinnugreinum.

Ferðafólki hér á landi hefur fækkað gríðarlega og samhliða því hefur fjöldi starfa í greininni dregist saman. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Mikill samdráttur varð í heildarlaunagreiðslum og fjölda starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum í ferðaþjónustunnar í júlí. Launagreiðslur í mánuðinum voru þannig 31 prósenti lægri en á sama tíma í fyrra. Til samanburðar nam samdrátturinn 3,1 prósenti í heildina á vinnumarkaði.

Fjöldi launafólks í greinum ferðaþjónustu dróst saman um nákvæmlega þriðjung í júlí. Hlutfallslega var niðursveiflan ennþá meiri hjá fyrirtækjum í gistirekstri eða 44 prósent. Hjá ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum og annarri bókunarþjónustu fækkaði störfum um 43 prósent. Þetta sýna niðurstöður mánaðarlegrar tilraunatölfræði Hagstofunnar.

Í frétt á vef stofnunarinnar segir að gera megi ráð fyrir því að flestir sem misstu störf sín í mars eða apríl á þessu ári hafi fengið síðustu útborgun vegna uppsagnarfrests í júlí og ágúst. „Því má ætla að breytingar á vinnumarkaði séu enn ekki komnar fram að fullu í gögnunum,“ segir í fréttinni.