Leiðin ennþá greið úr landi með Wizz Air

Ferðafrelsið er mismunandi milli Evrópulanda og reglurnar breytast hratt. Nú auðveldar Wizz Air farþegum að fá yfirsýn.

Ungverska lágfargjaldafélagið Wizz Air var það umsvifamesta í flugi til og frá Íslandi í byrjun mánaðar en síðustu daga hefur dregið nokkuð úr Íslandsflugi félagsins. Áfram gerir flugáætlun þess þó ráð fyrir ferðum til Keflavíkurflugvallar frá ellefu evrópskum borgum í sjö mismunandi löndum.

Af þessum sjö löndum er Ungverjaland það eina þar sem farþegar frá Íslandi þurfa í sóttkví við komuna. Ef flogið er héðan með Wizz Air til Austurríkis, Bretlands, Þýskalands, Póllands eða Ítalíu eru farþegar frjálsir ferða sinna.

Þessar upplýsingar eru nú birtar í nýju korti á heimasíðu Wizz Air sem verður uppfært að morgni hvers dags. Og ekki er vanþörf á enda breytast reglurnar oft með stuttum fyrirvara. Þar með er ekki einfalt að átta sig á því hvaða kröfur eru gerðar til ferðafólks í hverju landi fyrir sig.

Farþegar Wizz Air sem fljúga til Íslands þurfa svo allir í sóttkví við komuna hingað. Á þeirri reglu hafa ekki verið boðaðar neinar breytingar.