Litlu fleiri farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Niðursveiflan á Keflavíkurflugvelli er ennþá mjög mikil þó farþegahópurinn hafi stækkað. Í ágúst var hópur brottfararfarþega stærstur sem kann að skrifast á hertari kröfur um sóttkví því fleiri skrópuðu í Íslandsflug eftir að þær reglur gengu í gildi.

MYND: ISAVIA

Það voru 134.108 farþegar sem áttu leið um Leifsstöð í ágúst eða 2.497 fleiri en í júlí. Í báðum þessum mánuðum nam samdrátturinn 84 prósentum í samanburði við árið í fyrra.

Nú í ágúst ferðuðust fleiri frá Íslandi en komu hingað. Þannig voru brottfararfarþegar á Keflavíkurflugvelli nærri 72 þúsund í síðasta mánuði en komufarþegarnir 59 þúsund.

Skýringin liggur væntanlega í kröfunni um að allir fari í sóttkví við komuna til landsins. Sú regla gekk í gildi þann 19. ágúst og í kjölfarið versnaði mæting í Íslandsflug töluvert.

Sem fyrr eru svo tengifarþegarnir fáir í Leifsstöð enda eru aðeins í boði stakar ferðir þaðan vestur um haf.