Margfalt fleiri Íslendingar á norskum tjaldstæðum

Íslenskum gestum á norskum hótelum og gistiheimilum fækkaði mikið í júlí. Aftur á móti gistu miklu fleiri Íslendingar tjaldi í Noregi en áður.

Líkt og fleiri þjóðir þá ferðuðust Norðmenn innanlands í sumar. Það hafa líka Íslendingar búsettir í Noregi gert miðað við ásókn landans í norsk tjaldsvæði. Mynd: Visit Norway

Bæði norsk og íslensk stjórnvöld hafa hert aðgerðir við landamærin síðustu vikur. Þar með þurfa allir í tveggja vikna sóttkví sem koma til Íslands og í Noregi er krafan tíu dagar í flestum tilfellum.

Í sumar voru reglurnar ekki eins strangar og þá flugu Icelandair, SAS og Norwegian reglulega milli Óslóar og Keflavíkurflugvallar. Engu að síður fækkaði norskum túristum hér á landi um 56 prósent í júlí í samanburði við sama tíma í fyrra samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

Sambærileg talning er ekki til í Noregi en nýjar gistináttatölur hagstofunnar þar í landi sýna að gistinætur Íslendinga voru ríflega þrefalt fleiri í júlí en á sama tíma í fyrra.

Skýringin á þessari miklu viðbót liggur í fjölda íslenskra gesta á norskum tjaldsvæðum. Í júlí í fyrra voru gistinætur Íslendinga á norskum tjaldsvæðum 836 talsins. Núna rauk talan upp í 12.042 gistinætur. Viðbótin er því nærri fimmtán föld.

Þessa gríðarlegu aukningu má vafalítið rekja til þeirra rúmlega tíu þúsund Íslendinga sem búa í Noregi. Þeir hafa nefnilega haldið sig heima í sumar og þá kosið að tjalda.

Tölur norsku hagstofunnar sýna nefnilega að Íslendingar keyptu 73 prósent færri gistinætur á hótelum og gistiheimilum í Noregi í júlí. Samdrátturinn nam um tveimur þriðju þegar kemur að farfuglaheimilum. Íslendingarnir sem búsettir eru í Noregi hafa þá ekki náð að fylla skarðið sem íslenskir túristar þar í landi hafa skilið eftir sig í sumar.