Óljóst hvaða flugfélag sér um áætlunarflugið í vetur

Útboð Vegagerðarinnar á þremur innanlandsflugleiðum er í lausu lofti en flug samkvæmt skilmálum útboðsins á að hefjast eftir rúmar fimm vikur.

Flugvöllurinn í Bíldudal. Mynd: Isavia

Vegagerðin hefur afturkallað úthlutun á áætlunarflugi frá Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs og Hafnar í Hornafirði. Þetta kom fram í frétt Fréttablaðsins í síðustu viku.

Þrjú flugfélög sendu inn tilboð í flugleiðirnar þrjár og var Norlandair valið úr þeim hópi. Flugfélagið Ernir hefur sinnt áætlunarferðum á þessum leiðum síðustu ár og kærðu stjórnendur Ernis úthlutunina líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku.

Nú hefur Vegagerðin kallað eftir viðbótarupplýsingum frá Norlandair og Erni en flug samkvæmt skilmálum útboðsins á að hefjast 1. nóvember.

Það er því stuttur tími til stefnu og sérstaklega fyrir Norlandair ef það félag fær flugleiðunum úthlutað á ný. Norlandair hefur nefnilega ekki ennþá hafið miðasölu þó jómfrúarferðirnar séu á dagskrá eftir rúmar fimm vikur.

Samkvæmt svari frá Vegagerðinni er þó ekki hægt að svara því hversu hratt málið verður unnið.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.