Opna á umræðu um þjóðnýtingu Norwegian

Fyrir rúmum tveimur árum seldi norska ríkisstjórnin hlut sinn í SAS en nú gæti styst í að hið opinbera blandi sér á ný í flugrekstur.

Þessa dagana mæta forráðamenn norskra flugfélaga reglulega til fundar við Iselin Nybø, viðskiptaráðherra Noregs. Þangað komu til að mynda stjórnendur SAS og Norwegian í síðustu viku í tengslum við ósk þeirra um að norska ríkið bæti flugrekendum helming þess tjóns sem heimsfaraldurinn hefur valdið. Sú upphæð samsvarar rúmlega tvö hundrað milljörðum króna.

Umræðan um Norwegian snýr þó ekki aðeins að þessum mögulegu bótum því Jacob Schram, forstjóri, hefur viðurkennt að félagið komist að óbreyttu ekki í gegnum veturinn.

Schram hefur því kallað eftir einhverskonar aðkomu ríkisins. Og undir þessa beiðni tekur þingmaðurinn Jon Gunnes, samflokksmaður Nybø viðskiptaráðherra og talsmaður Venstre í samgöngumálum.

Í viðtali við TV2 í Noregi viðrar Gunnes þá hugmynd að norska ríkið veiti Norwegian auknar lánaábyrgðir eða setji jafnvel inn hlutafé. Hann sér þó ekki fyrir sér að hið opinbera verði meðeigandi í Norwegian í lengri tíma en núna eru rúm tvö ár síðan Norðmenn seldu hlut sinn í SAS.

Gunnes er ekki eini þingmaðurinn á Stórþinginu sem vill skoða frekari stuðning við Norwegian. Þannig funduðu þrír þingmanna Framfaraflokksins með stjórnendum flugfélagsins fyrir helgi.

Talmaður Kristilega flokksins í samgöngumálum segir svo í samtali við TV2 að hann útiloki ekki neitt þegar hann spurður um mögulega aðkomu norska ríkisins að Norwegian.

Nú morgun gaf breski bankinn HSBC út nýtt mat á gengi hlutabréfa í Norwegian. Sérfræðingar bankans telja hvern hlut aðeins virði 25 norska aura en gengið var rétt um 90 aurar í lok gærdagsins. Gengið var aftur á móti ein norsk króna á hlut í hlutafjárútboði félagsins í sumarbyrjun.