Play tapaði 54,4 milljónum króna

Ársreikningur félagsins sem heldur utan um rekstur Play sýnir að hlutafé var aukið um fimmtíu milljónir króna í fyrra.

MYND: PLAY

Launagreiðslur Fly Play ehf. námu samtals 95,6 milljónum króna í fyrra og stöðugildi voru sautján talsins. Annar rekstrarkostnaður nam tæplega 41 milljón króna. Tekjur félagsins voru hins vegar engar enda hófst farmiðasala Play ekki í lok nóvember í fyrra líkt og upphaflega var stefnt að.

Tap ársins hjá rekstrarfélagi Play var þó mun lægra en sem nemur launa- og rekstrarkostnaði eða 54,4 milljónir króna samkvæmt nýjum ársreikningi fyrirtækisins. Skýringin er sú að langstærsti hluti launa og lífeyrissjóðsgreiðslna Fly Play í fyrra er færður undir liðinn „eignfærður launakostnaður meðal óefnislegra eigna.“

Hlutafé Fly Play var aukið í fyrra um fimmtíu milljónir króna en áður var það aðeins hálf milljón kr. Eigandi Fly Play var Neo ehf. en eignarhaldið var fyrr á þessu ári flutt yfir í Fea ehf. sem er í eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Play. Eigið fé þessa nýja móðurfélags Play nam 2,1 milljón króna um síðustu áramót.

Í uppgjöri Fly Play fyrir árið 2019 er flugrekstrarleyfi Play bókfært á 96,6 milljónir króna undir óefnislegar eignir og vörumerki Play á 22,6 milljón kr. Í því samhengi má þess geta að Play hefur ekki fengið úthlutað flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu enda er forsenda fyrir þess háttar leyfi sú að félagið hafi flugvél til umráða. En vegna Covid-19 heimsfaraldursins þá bíða forsvarsmenn Play átekta með að hefja flugrekstur eins og áður hefur komið fram.

Viðskiptaskuldir Fly Play námu í árslok í fyrra 144,6 milljónum króna og þar af var skuldin við erlenda lánadrottna 89 milljónir kr.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.