Rekstrarfélag finnskrar ferðaskrifstofu í eigu Arion banka gjaldþrota

Eitt þeirra fyrirtækja sem áður tilheyrði Primera Travel Group varð í dag gjaldþrota.

Skjámynd af heimasíðu Matkavekka.

Arion banki tók yfir Travelco Nordic, ferðaskrifstofuveldi Andra Más Ingólfssonar, sumarið 2019 en það samanstóð þá af sjö norrænum ferðaskrifstofum. Þar á meðal Matkavekka í Finnlandi en í dag óskuðu stjórnendur ferðaskrifstofu eftir gjaldþrotaskiptum rekstrarfélags ferðaskrifstofunnar, Primera Holidays Oy.

Aðspurður um stöðuna þá staðfestir Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Travelco Nordic, að þetta hafi því miður orðið niðurstaðan. Jón Karl undirstrikar að gjaldþrot rekstrarfélagsins hafi engin áhrif á viðskiptavini Matkavekka né birgja en hjá fyrirtækinu unnu um tíu manns.

Á heimasíðu Matkavekka er ennþá hægt að panta ferðir enda fer ferðaskrifstofureksturinn fram í gegnum danskt systurfélag. En eins og staðan er í dag má segja að ferðalög til og frá Finnlandi séu mjög takmörkuð enda þurfa flestir þeir sem til landsins koma að fara í tveggja vikna sóttkví.

Travelco Nordic hét áður Primera Travel Group en eftir gjaldþrot Primera Air, haustið 2018, þá voru allar ferðaskrifstofur samsteypunnar færðar undir danskt móðurfélag. Heimsferðir voru þar á meðal en sú ferðaskrifstofa var færð undir íslenskt félag við yfirtöku Arion banka í fyrrasumar.