Rekstur sérstaks innanlandsflugvallar ekki lengur fýsilegur kostur

Bromma flugvöllur í Stokkhólmi hefur lengi verið bitbein stjórnmálamanna. Nú hefur rekstraraðili flugvallarins höggvið á hnútinn.

Nýverið lauk umfangsmiklum endurbótum á flugstöðinn í Bromma. Nú er spurning hvort flugvellinum verði lokað fyrr en áætlað var. Mynd: Swedavia

Síðustu áratugi hafa Svíar karpað um framtíð Bromma flugvallar í Stokkhólmi og líkist deilan á margan hátt umræðu um tilveru Reykjavíkurflugvallar. Í sænsku höfuðborginni eru nefnilega margir ráðamenn á þeirri skoðun að flugvallarsstæðið ætti frekar að nýta undir íbúðabyggð.

Öfugt við Vatnsmýrina þá er Bromma flugvöllur ekki inn í miðborg Stokkhólms heldur í vesturhluta borgarbyggðarinnar. Og sæmileg sátt hefur verið um að flugvöllurinn víki árið 2038 þegar leigusamningur borgarinnar við Swedavia, opinbera fyrirtækisins sem rekur flugvelli landins, rennur út.

Starfsemin verður þá flutt yfir á alþjóðaflugvöllinn við Arlanda, 40 kílómetra fyrir utan Stokkhólm, sem á þeim tímapunkti verður orðin afkastameiri, m.a. vegna tilkomu nýrrar flugbrautar. Arlanda flugvöllur er reyndar nú þegar meira nýttur í innanlandsflug en sá í Bromma. Þannig voru innanlandsfarþegarnir á Arlanda 4,9 milljónir í fyrra en tvær milljónir í Bromma.

Nú er það aftur á móti mat stjórnenda Swedavia að ekki sé lengur rekstrargrundvöllur fyrir Bromma flugvelli og starfsemina megi flytja út á Arlanda án frekari framkvæmda þar. Ástæðan er sú að umferð um sænska flugvelli hafi dregist svo mikið saman vegna Covid-19. Þetta kemur fram í greinargerð sem Swedavia vann fyrir sænska viðskiptaráðherrann og birt var í gær. Þar er þó lögð áhersla á að Arlanda flugvöllur verði stækkaður til lengri tíma litið.