Sæti fyrir 336 farþega í flugferðum dagsins

Sjö af þeim níu brottförum sem voru á dagskrá Keflavíkurflugvallar í dag hefur verið aflýst.

Úr farþegarými easyJet þotu en breska flugfélagið stendur fyrir ferð héðan til London klukkan korter í níu. MYND: EASYJET

Nú í morgunsárið tekur TF-FIN, 22 ára gömul Boeing þota Icelandair, á loft frá Keflavíkurflugvelli og tekur stefnuna á flugvöllinn við Kastrup. Stuttu síðar er svo komið að þrettán ára gamalli Airbus þotu easyJet sem flýgur héðan til Luton flugvallar. Samtals eru sæti fyrir 336 farþega í þotunum tveimur.

Fleiri verða brottfarirnar ekki frá Keflavíkurflugvelli þennan þriðjudaginn. Til samanburðar voru þær sextán síðasta þriðjudag ágústmánaðar og fimmtán á sama tíma í júlí.

Á morgun verður flugumferðin héðan meiri því þá eru á dagskrá ferðir til Boston, Kaupmannahafnar, Nuuk, Varsjár og Amsterdam.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.