SAS komið fyrir vind í bili

Viðræður við eigendur skuldabréfa í SAS hafa loks skilað árangri og þar með er síðustu hindruninni fyrir hlutafjárútboð félagsins hrundið úr veginum. Fyrirfram er búið að selja bróðurpartinn af nýju hlutabréfunum.

Hlutafjárútboð SAS verður haldið undir lok næsta mánaðar. MYND: SAS

Saman fara danska og sænska yfirvöld með 29 prósent hlut í SAS. Og strax í upphafi kórónaveirukreppunnar gáfu stjórnvöld í löndunum tveimur út að SAS fengi opinbera lánalínu. Svo dróst kreppan á langinn og í sumarbyrjun var nýr björgunarpakki kynntur.

Sá gekk út á að stærstu eigendurnir, danska og sænska ríkið, myndu setja inn aukið hlutafé í SAS og um leið kaupa stóran hluta af nýrri skuldabréfaútgáfu félagsins. Þó var sá fyrirvari settur að þetta yrði aðeins gert ef eigendur eldri og óveðtryggðra skuldabréfa myndu fallast á að breyta hluta af sínum kröfum í hlutafé.

Viðræðurnar við þessa skuldabréfaeigendur hafa aftur á móti dregist á langinn en í gær náðist samkomulag.

Þar með er ekkert í veginum lengur fyrir því að SAS geti hrundið af stað hlutafjárútboðinu sem boðað var í sumar. Og þar hafa danskir og sænskir ráðamenn heitið að kaupa stærstan hluta útgáfunnar eða 81,5 prósent.

Það þýðir að eignarhlutur nágrannaríkjanna tveggja gæti hækkað upp í 73 prósent ef fjárfestar halda að sér höndum. Ef þátttakan í útboðinu verður mikil þá fer hluturinn Dana og Svía aðeins upp í 37 prósent.

Upphaflega var ætlunin að fjórir skandinavískir bankar myndu sölutryggja það sem upp á vantar eða 18,5 prósent af útgáfunni. Nordea bankinn, sem er sá stærsti á Norðurlöndum, vildi þó ekki taka þátt og þar með varð heldur ekkert af þátttöku hinna bankanna.