Setja núna fyrirvara við óbreytt frumvarp um ríkisábyrgð

Samtök atvinnulífsins og ferðaþjónustunnar hafa sent inn breytta umsögn til fjárlaganefndar Alþingis í tengslum við boðaða lánalínu til Icelandair Group.

Mynd: ICELANDAIR

Það hafa borist tíu umsagnir til fjárlaganefndar í tengslum við frumvarp um að veita ríkisábyrgð á 15 milljarða lánalínu til Icelandair Group. Þar á meðal er sameiginlegt álit frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Í fyrstu útgáfu þessa álits var hvatt til þess að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt líkt og Túristi greindi frá um helgina. Nú hefur umsögninni verið breytt og þessi afdráttarlausi stuðningur við óbreytt frumvarp hefur verið tekinn út.

Áfram styðja samtökin tvö málið og hvetja til þess að það verði klárað í ljósi aðstæðna og kerfislegs mikilvægis Icelandair. Núna er hins vegar lagt til að fjárlaganefnd skoði hvort rétt sé að ábyrgðinni fylgi það skilyrði að hún verði einvörðungu nýtt í flugrekstri. Lánveitingin yrði þá til Icelandair ehf en ekki Icelandair Group hf líkt og tilgreint er í nýrri umsögn SA og SAF.

Staðreyndin er sú að umsvif Icelandair Group takmarkast ekki við millilandaflug. Fyrirtækið er líka stórtækt á öðrum sviðum ferðaþjónustu og í flutningastarfsemi. Á þetta er meðal annars bent á í umsögnum til fjárlaganefndar frá forsvarsfólki íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja, þar á meðal Atlantik, Snæland – Grímsson og Go North.