Sex þúsund færri farþegar í ágúst

Umsvif Icelandair hafa dregist saman á ný. Forstjórinn segir félagið þó vel í stakk búið til að takast á við samdráttinn en framundan er hlutafjárútboð þar sem ætlunin er að ná inn að lágmarki tuttugu milljörðum króna.

MYND: ISAVIA

Eftir að hertari reglur voru teknar upp á landamærunum þann 19. ágúst þá hefur orðið mikill samdráttur í starfsemi Icelandair. Fyrstu átján dagana í ágúst flugu þotur félagsins að jafnaði nítján ferðir á dag, til og frá Keflavíkurflugvelli. En eftir að allir farþegar voru skyldaðir í sóttkví við komuna til landsins fór ferðafjöldinn þó niður í þrettán ferðir á degi hverjum samkvæmt talningum Túrista.

Samtals flugu 67 þúsund farþegar með Icelandair í ágúst og þar af voru hátt í 53 þúsund farþegar á leið til Íslands og um 13 þúsund frá Íslandi. Heildarfarþegafjöldinn nam 73 þúsundum í júlí.

Í samanburði við ágúst í færra nemur samdrátturinn í farþegahópnum 88 prósentum en framboð félagsins á flugsætum dróst álíka mikið saman eða um 89 prósent.

„Félagið er þó vel í stakk búið til að takast á við slíkar breytingar og leggjum við höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þeirri stöðu sem er uppi á hverjum tíma á mörkuðum Icelandair,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu. Hann segist horfa fram á mikinn samdrátt á næstunni.