Sjö af hverjum tíu sætum skipuð farþegum

Stjórnendur lággjaldaflugfélaganna Ryanair og Wizz air settu í loftið fleiri flugvélar en margir af keppinautunum í sumar. Í ágúst fækkaði farþegum félaganna engu að síður um helming frá sama tíma í fyrra.

Wizz Air hefur síðustu ár verið stórtækt í flugi til Íslands. Mynd: Isavia

Um leið og flugsamgöngur milli Evrópulanda voru að hefjast á ný í júní þá gerður stjórnendur Wizz Air og Ryanair sér vonir um að leiðin upp á við yrði hröð. Kollegar þeirra hjá öðrum flugfélögum voru ekki eins brattir og nú hafa bæði Wizz Air og Ryanair þurft að draga saman seglin.

Þannig gerir ný áætlun Wizz Air aðeins ráð fyrir 60 prósent afköstum næstu mánuði en ekki áttatíu prósent. Er þá miðað við sama tíma í fyrra.

Í dag hafa svo þessi tvö af stærstu lággjaldaflugfélögum Evrópu birt farþegatölur sínar fyrir ágúst. Hjá Ryanair var niðurstaðan sú að farþegum fækkaði úr fimmtán milljónum niður í sjö eða um 53 prósent.

Farþegum Wizz Air fækkaði niður í 2,4 milljónir eða um 41 prósent. Hjá báðum félögum var sætanýtingin rétt rúmlega sjötíu prósent.

Þess má geta að sætanýting Icelandair var þetta há í júlí eða 70,3 prósent. Í þeim mánuði fækkaði farþegum félagsins reyndar um 87 prósent.